Umhverfisstefna Kraftgöngu

 

,,Hrein og óspillt náttúra eykur vellíðan“



Umhverfisstefna Kraftgöngu


Náttúran er einn mikilvægasti hlekkur starfseminnar, því þar fer útivistin fram.  Kraftganga lítur á það sem skyldu sína að bera ábyrgð gagnvart náttúrunni með því að ganga með aðgát um óbyggðir og aðrar náttúruperlur.  Kraftganga leggur því áherslu á að sýna gott fordæmi í umgengni við náttúru Íslands og hvetja til aukinnnar samfélagslegrar ábyrgðar gagnvart náttúruauðlindum landsins.

Kraftganga leggur sitt af mörkum til að bæta ástand íslenskrar náttúru, í því augnamiði að komandi kynslóðir geti notið hennar á sama hátt og nú er unnt.  Til að mynda hvetur Kraftganga göngufólk til þess að tína upp rusl eða annað sem á ekki heima í náttúrunni. 

Markvisst er unnið að því að lágmarka hver þau neikvæðu umhverfisáhrif sem starfsemin kann að valda og lögum um náttúruvernd og umgengni við náttúru verður framfylgt í hvívetna.

Á ferðalögum í íslenskri náttúru er ávallt haft í huga að hún er viðkvæm gagnvart spjöllum sem umferð og annað rask kann að hafa í för með sér.  Borin er virðing gagnvart lífríki náttúrunnar og heimkynnum villtra dýrategunda.

Hlutverk Kraftgöngu í umhverfismálum

-Að stuðla að heilbrigði og vellíðan þátttakenda og gera þeim unnt að njóta þess sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða. 

- Að hvetja ferðamenn til aukinnar vitundar um umhverfismál með því að veita þeim fræðslu um íslenska náttúru, hreinleika hennar og mikilvægi þess að viðhalda þeim eiginleikum sem hún hefur.

- Að veita ferðamönnum upplifun á landi og náttúru og sjá til þess að þeir ferðamenn sem njóta þjónustunnar, innlendir og erlendir, skilji vel við land og náttúru.




Framtíðarsýn Kraftgöngu


Kraftganga mun vera leiðandi afl í íslensku samfélagi og hvetja til heilbrigðs lífstíls með því að rækta samband manns og náttúru.

Umhverfismarkmið Kraftgöngu

  1. Að bílakostur fyrirtækisins verði alfarið knúinn með umhverfisvænum orkugjöfum innan áratugs. 

  2. Að allir starfsmenn fyrirtækisins verði upplýstir og meðvitaðir um mikilvægi þess að virða land og náttúru.  Ennfremur að allir starfsmenn taki þátt í að móta og efla umhverfisstefnu Kraftgöngu í tímans rás.

  3. Að efla vitund ferðamanna um gildi hreinnar og óspilltrar náttúru.

  4. Að aðföng og þjónusta sem Kraftganga fjárfestir í sé framleidd af umhverfisvottuðum aðilum eins og frekast er kostur.

  5. Að notast við grænt bókhald til þess að fylgjast með þeim umhverfisáhrifum sem fyrirtækið kann að valda með starfsemi sinni.

  6. Áhersla er lögð á að fyrirbyggja skaða sem náttúran kann að verða fyrir með því meðal annars að hvetja starfsmenn til þess að fylgjast með og vekja athygli á málefnum tengdum umhverfisvernd á Íslandi og í öðrum löndum.  Þannig mun Kraftganga leggja sitt af mörkum til þess að bæta það sem betur má fara gagnvart umhverfismálefnum á Íslandi og í þeim löndum sem ferðast er til. 


Reykjavík 12.08.2012

Umhverfisstefna þessi verður endurskoðuð eigi sjaldnar en á ársgrundvelli.



„Án hreinnar náttúru væri engin Kraftganga“

„Án hreinnar náttúru væri óvíst um árangur af Kraftgöngu“